Samfélagsmiðlar
Ég á það alveg til að koma við á samfélagsmiðlunum! Tékkit.

Barnabækur

Posted by on Apr 18, 2014 in Bransablogg
Barnabækur
Greinin hér fyrir neðan birtist á vefritinu lifandivefrit.hi.is. Sá fíni vefur opnaði formlega í maí 2014. Fleiri myndir fylgja þeirri grein og ég mæli með innliti þangað!

Hugsjónastarf eða atvinnugrein?

 

Það er sjálfsögð krafa að efni ætlað börnum sé unnið af fagmennsku. En er hægt að búast við gæðum þegar verkin eru unnin næstum launalaust?

Kvöldlestur með börnunum er í mörgum fjölskyldum mikilvæg samverustund. Myndabókin, hvort sem henni er miðlað á prenti eða stafrænt, er fyrsta lestrarreynsla barnsins og jafnvel fyrsta myndlistarupplifunin.

Höfundar barnabóka á Íslandi vinna hugsjónastarf. Þeir sinna reyndar ekki sjúkum og halda sig örugglega fjarri björgun mannslífa í svartabyl. En barnabókmenntir eru samofnar menningu okkar og fólkið sem skapar þær vinnur verkin þótt það gruni að hvorki sérstök virðing né veraldlegur auður fylgi með.

Kristín Steinsdóttir, formaður Rithöfundasambands Íslands, hefur ásamt fleiri rithöfundum talað fyrir aukinni virðingu barnabókmennta. Hún hefur bent á að ýmislegt megi betur fara á þessu sviði og hefur nefnt umfjöllun fjölmiðla og úthlutanir úr launasjóði rithöfunda máli sínu til stuðnings.

Kjaramál höfunda er óvinsælt málefni

Þrátt fyrir að barnabækur séu ýmist unnar af hugsjón eða af brennandi áhuga, má færa rök fyrir því að lesendur eigi rétt á að fagleg vinnubrögð liggi að baki útgáf­unni. Það er sjálfsagður réttur barna að þeim sé boðið uppá vandað efni sem á uppruna úr þeirra eigin samtíma og umhverfi. Að vanda til verka tekur tíma og eins leiðinlegt og það nú er, kostar tími peninga!

Kjaramál og barnabókmenntir eru málefni sem er sjaldan stillt saman, að gera það eru hálfgerð helgispjöll. Umræðan um barnabækur er almennt á blíðu nótunum enda lestur þeirra talinn til dyggða og sveipaður rómantík. Sjálfboðavinna í þágu góðs málefnis getur reyndar falið í sér heilmikla rómantík! En til lengri tíma er erfitt að skila faglegri vinnu því sem næst launalaust.

Listamenn úr öllum greinum og rithöfundar kannast við að ræða kjörin í eigin hópi, en það umræðuefni er tæplega í uppáhaldi. Launin eru betur talin í virðingu, arfleifð og hamingju en í krónum. Sumum finnst kannski skammarlegt að opinbera hvað meistaraverkið seldist í lágu upplagi. Kannski fúlt að segja frá því að þegar búið var að borga útgáfunni, bókabúðinni, prentaranum og hönnuðinum, voru laun til höfundarins lítil sem engin.

Rissa_i_olgusjo

Opna úr bókinni Rissa vill ekki fljúga. Texti eftir Kristínu Steinsdóttur, myndir eftir Höllu Sólveigu.

Sérstaða myndabóka

Bækur ætlaðar yngstu lesendunum hafa sérstöðu þar sem myndir og texti skipa jafnan sess. Myndhöfundar eru ekki áberandi í umræðu um barnabækur en réttindabarátta þeirra hefur meðal annars snúist um að fá viðurkenningu á að vera fullgildir meðhöfundar bókanna.

Myndræn miðlun hefur í gegnum tíðina verið skörinni lægri en miðlun orðsins, og myndhöfundar barnabóka skörinni lægri en höfundar textans. Í seinni tíð hafa þó ýmsir bent á mikilvægi myndrænnar framsetningar á breiðu sviði.

Hagnaður af sölu verður seint driffjöður á vettvangi barnabókmennta á smáum markaði. Þessi fullyrðing á ekki síst við um myndabækur. Þær eru dýrar í framleiðslu en verðlagðar lágt, enda í samkeppni við leikföng og fjöldaframleitt afþreyingarefni.

Góð barnabók ekki hrist fram úr erminni

Það tíðkast að rithöfundur og myndhöfundur skipti með sér höfundalaunum, sem verða ósköp rýr. Þegar búið er að skipta laununum er ekki óalgengt að hvor höfundur fái innan við 200.000 krónur fyrir bókina. Og þá á eftir að borga skatta og gjöld.

Að baki þessari krónutölu liggur oft gríðarleg vinna. Rithöfundurinn sekkur sér í heimildaöflun þar sem sögusviðið er rannsakað. Persónusköpun skipar stóran þátt í undirbúningi og að ýmsu er að hyggja áður en sjálft handritið kemst á skrið. Loks hefst sjálf textavinnan en hún getur tekið langan tíma.

Myndhöfundur er stundum með í ferlinu frá upphafi en tekur í öðrum tilfellum við fullbúnu handriti. Þá tekur við tími þar sem myndræna framsetningin er unnin. Handritið er rannsakað, söguborð teiknað og heimildavinna unnin. Persónur og sögusvið skissað upp, teikningarnar útfærðar og litaðar stafrænt eða handvirkt og loks færðar á stafrænt form. Skemmtileg og krefjandi vinna sem getur tekið margar vikur, en það er tími sem fáir geta gefið nánast launalaust. Í það minnsta ekki ár eftir ár.

Margir koma að vinnuferli barnabókar. Auk höfunda, starfsfólks útgáfu og prentsmiðju kemur hönnuður að bókagerðinni. Hann sér um val á leturtýpum, útlit kápu og innsíðna og undirbýr bókina til útgáfu hvort sem hún er á prenti eða stafræn. Hér hefur tíðkast að verðleggja hönnun á bókum fyrir börn umtalsvert lægra en fyrir fullorðna. Að baki liggur þó vinnuframlag sem er sambærilegt í báðum flokkum.

Vinnustofa

Af vinnustofunni. Hér var unnið að teikningu í bókina Vítahringur eftir Kristínu Steinsdóttur.

Aukinn opinber stuðningur óskast

Að ungir lesendur eigi heimtingu á gæðaefni í barnabókum á að sjálfsögðu líka við um námsefni. Til að miðla því myndrænt til nemenda eru gerðir verktakasamningar við teiknara. Þar er á ferðinni hópur hugsjónafólks sem vinnur vandað verk á lágum launum.

Því miður kemur fyrir að tímaskortur höfunda gleypir fagmennskuna og hrækir óvönduðum verkum á lesendur. Smæð og eðli barnabókamarkaðarins hér á Íslandi kemur í veg fyrir að greinin geti verið fullkomlega sjálfbær. Sjálfboðavinna höfunda, fórnfýsi útgefenda og lágir taxtar annarra eru þættir sem styðja við þessa útgáfu.

Aukinn opinber stuðningur við greinina myndi vafalaust skila sér í vandaðra efni til barna. Það væri ánægjulegt að sjá hugsjónafólkið sem skapar íslenskar barnabækur fá tækifæri til að sinna starfi sínu í þágu barnamenningar, og endrum og eins að hafa hugsjónina að atvinnu.

Velkomið að deila!